Líf og John Snorri á K2

John Snorri Sigurjónsson er ofurhugi sem hefur verið ein mesta fjallageit okkar Íslendinga um þó nokkuð skeið en ekki farið mikið fyrir í fjölmiðlum.  John Snorri hefur klifið nokkra af hærri tindum heims en setur núna markið á toppinn og ætlar í sumar að verða fyrsti Íslendingurinn til að klífa fjallið K2, sem er 8.611 metra hátt og er talið eitt af erfiðustu fjöllum jarðar af klífa.

MEIRA Á LÍFSSPOR.IS 

Undirbúningurinn
Það hefur verið markmið John Snorra um nokkurt skeið að ganga upp á K2 en undirbúningurinn hans hófst fyrir alvöru 3. apríl þegar hann fór til Nepal þar sem hann kleif fjórða hæsta fjall heims, Lhotse (8,516 metrar).  Farin er sama leið og upp Everest nema síðasta leggin þá er farið til hægri en þeir sem fara á Everest til vinstri. John Snorri komst á toppinn 16. maí og varð þar með fyrsti Íslendingurinn að klífa fjallið.  Leiðangurinn tók um  55 daga.  

K2
Í byrjun júní fór John Snorri til Islamabad og þaðan liggur núna leiðin í grunnbúðir K2. Ferðalagið um skóg – og fjallendi Pakistans getur verið stórbrotið og áhættusamt þar sem mikið eru um öfgahópa í landinu.   Reiknað er með að John Snorri verði kominn í grunnbúðir K2 í lok  júnímánaðar.  Þar mun hann dvelja áður en hann klifur þetta erfiðasta fjall heims. Leiðangurinn tekur líklega um 80 daga.

Áheit á Líf
John Snorri er fimm barna faðir. Hann hefur heimsótt Kvennadeild Landspítalans oftar en margir og notið þeirrar einstöku þjónustu sem þar er veitt. Þegar John Snorri ákvað að láta gamlan draum rætast og ganga upp K2 langaði hann að láta gott af sér leiða í leiðinni. Eitt leiddi af öðru og núna er John Snorri farinn af stað í leiðangurinn mikla merktur Líf Styrktarfélagi í bak og fyrir.

John Snorri mun því næstu vikur safna áheitum fyrir Líf og þar með fara í spor Vilborgar Örnu pólfara sem gerði slíkt hið sama þegar hún gekk ein síns liðs á Suðurpólinn undir lok árs 2012. Þeir sem vilja styðja John Snorra í þessu ferðalagi og um leið Líf – geta gert það hér eða hringt í síma 908 1515.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Kári Schram mun fylgja John Snorra eftir og því munum við geta fylgt John Snorra eftir með myndum frá Kára. Í framhaldinu ætlar Kári að gera alþjóðleg heimildarkvikmynd um leiðangurinn.

Við stefnum á toppinn með John Snorra – og ætlum að taka ykkur með í ferðalagið með því að setja inn á facebooksíðu Líf fréttir, viðtöl og myndir af leiðangrinum. Hér er hægt að fylgjast með þessu ferðalagi á heimasíðunni Lífsspor.is og á facebooksíðu verkefnisins.