ÚTHLUTUNARREGLUR

Líf styrktarfélag
1. gr.
Hlutverk Lífs styrktarfélags

Tilgangur Lífs styrktarfélags er að styrkja kvennadeild Landspítalans, bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Félagið vinnur að líknar- og mannúðarmálum í þágu fjölskyldna.

2. gr.
Úthlutanir

Stjórn félagsins úthlutar styrkjum til eftirtalinna verkefna:

  • Umbóta á aðstöðu, aðbúnaði og þjónustu við konur og aðstandendur þeirra.
  • Tækjakaupa fyrir kvennadeild Landspítalans.
  • Annarra verkefna sem úthlutunarnefnd félagsins metur styrkhæf.

Við mat á umsóknum er ávallt gengið úr skugga um að umbætur séu með langtímamarkmið í huga. Úthlutunarnefnd getur fengið umsögn fagaðila, telji hún þess þörf.

3. gr.
Umsóknarferli

Starfsmenn og velunnarar kvennadeildar geta sótt um styrki til tækjakaupa eða verkefna í þágu kvennadeildar með bréfi til úthlutunarnefndar.

Umsóknir skulu sendar á styrkur@gefdulif.is

Úthlutunarnefnd fjallar um styrkbeiðnir og afgreiðir tillögur til stjórnar sem tekur endanlega ákvörðun um styrkveitingu. Ákvarðanir um styrkveitingu teljast samþykktar ef meirihluti stjórnar gefur samþykki sitt.

Öllum umsóknum verður svarað.

4. gr.
Almennt um umsóknir.

Styrkumsóknir eru að jafnaði afgreiddar jafnóðum, þó ekki sjaldnar en á þriggja mánaða fresti.

Lágmarksstyrkur er að jafnaði 50.000 krónur.

Umsóknir skulu bera greinilega með sér til hvers og hvernig umsækjandi hyggst nýta styrkinn. Þeim skulu fylgja eftirtalin gögn og upplýsingar eftir því sem við á:

  1. Upplýsingar um umsækjanda/umsækjendur.
  2. Rökstuðningur fyrir verkefninu og nauðsyn þess.
  3. Nákvæm lýsing á verkefninu ásamt tíma- og kostnaðaráætlun, eftir því sem við á.

5. gr.

Eftirlit stjórnar félagsins

Stjórn félagsins hefur eftirlit með því að styrkir séu notaðir til þess sem getið var í umsóknum.

Styrkþegum er skylt að kynna fulltrúa stjórnar stöðu verksins, sé þess óskað og afhenda stjórninni umbeðin gögn henni að kostnaðarlausu.

Stjórnin getur óskað eftir áfangaskýrslum, ef þurfa þykir. Hægt er að svipta umsækjanda styrk telji stjórnin að verkið sé ekki unnið í samræmi við umsókn og innsend gögn.

Að verkefni loknu skal styrkþegi kynna árangur og niðurstöður fyrir úthlutunarnefnd og stjórn með skriflegri skýrslu óski stjórn eftir því.

Heimilt er að vísa umsóknum frá, ef misbrestur hefur orðið á skilum umsækjenda vegna fyrri styrkveitinga.

6. gr.
Gildistaka.

Úthlutunarreglur þessar taka þegar gildi.

Stjórn Lífs styrktarfélags

18.4.2011